Áhugaverðir staðir í nágrenninu

Jaðar Eldhrauns

Margar af vinsælustu náttúruperlum suðurlands er að finna á okkar landsvæði. Syðri - Steinsmýri stendur við jaðar Eldhrauns sem hafði þá runnið yfir 60km frá gosstöðvunum við Laka. Hraunið er þakið mosa sem breytir sífellt um lit eftir rakastigi. Mikið fuglalíf er einnig í Steinsmýrarflóði.

Fjaran

Hægt er að keyra niður í fjöru frá Syðri-Steinsmýri á flestum fjórhjóladrifs bílum, þó ekki minnstu jepplingum. Í slysavarnarskýlinu við fjöruna er að finna sýningu sem Fótspor - félag um sögu og minjar í Skaftárhreppi hafa sett upp um skipsströnd. Slysavarnarskýlið á sér langa sögu en það var upphaflega vöruhús reist árið 1920. Skaftfellingur sigldi með vörur og gjörbreytti skipið vöruflutningum til sveitarinnar sem þá var einangruð milli óbrúaðra fljóta. Hægt er að lesa meira um Skaftfelling, sögu, menningu og náttúru Skaftárhrepps á vefsíðunni www.eldsveitir.is

Kirkjubæjarklaustur

Í nágrenni Kirkjubæjarklausturs er helst að nefna Systrafoss, Kirkjugólfið, Stjórnarfoss og Fjaðrárgljúfur.


Skaftárstofa er upplýsingamiðstöð ferðamanna og þar má finna mikinn fróðleik um næsta nágrenni, hægt er að sjá þar sýningar um Vatnajökulsþjóðgarð og einnig er þar verslun með bækur, kort og minjagripi.

Hálendið

Fyrir lengri dagsferðir upp á hálendið er hægt að horfa til Laka, Eldgjár, Langasjós og Landmannalauga. Þessir vegir eru færir flestum fjórhjóladrifsbílum en þó ber að gæta fyllstu aðgæslu og taka mið af veðurspá.

Jökulsárlón

Jökulsárlón er í tæpra 2klst  akstursfjarlægð frá Syðri-Steinsmýri. En á leið þangað eru margir áhugaverðir staðir sem vert er að skoða má nefna Dverghamrar, Skaftafell, Svínafellsjökull, Ingólfshöfða og Fjallsárlón.